8.8.2009 | 15:00
Neyðarkall frá Pakistan
Brenna ofan af kristnu fólki | |
ABC barnahjálp hefur hrint af stað söfnun til handa fórnarlömbum heittrúaðra múslíma í Pakistan. Kristnar fjölskyldur í Chak 96, þar sem einn ABC skóli er, hafa að undanförnu verið ofsóttar af heittrúuðum múslimum. Á dögunum voru um 120 hús kristinna fjölskyldna brennd og misstu fjölskyldurnar allar eigur sínar. Sjö manns brunnu inni, þeirra á meðal konur og börn. Um 150 slösuðust í brennunum. |
Neyðarkall frá Pakistan er yfirskrift bréfs sem velunnurum ABC barnahjálpar var sent í dag. Í bréfinu lýsir Mike Ditta, forstöðumaður ABC skólanna í Pakistan, árásum heittrúaðra múslíma á hverfi kristinna í Gorjan.
Ditta segir í bréfinu að síðastliðinn laugardag hafi um eitt þúsund manns safnast saman og haldið að hverfi kristinna. Hópurinn hafi hrópað ókvæðisorð að kristnum, skotið af byssum, rænt og ruplað og síðan lagt eld að heimilum kristinna. Tvær kirkjur í hverfinu hafi sömuleiðis verið brenndar.
Beiðni kristinna um aðstoð lögreglu var ekki sinnt.
Þetta var helvíti líkast. Við fengum enga hjálp, hefur Ditta eftir Atique Masih, 23 ára kristnum íbúa hverfisins. Hann komst af en hlaut skotsár á fæti.
Um 175 milljónir manna búa í Pakistan. Kristnir, mótmælendur og kaþólikkar eru um 5% íbúa landsins og hafa heittrúaðir múslímar ítrekað ofsótt minnihlutahópa.
Mikil spenna ríkir í landinu og eru kristnir uggandi um líf sitt.
Mike Ditta, forstöðumaður ABC skólanna í Pakistan rifjar í bréfi sínu upp söguna af miskunnsama samverjanum og biðlar til íslendinga um hjálp.
Bræður mínir og systur á Íslandi, gætuð þið hjálpað okkur um einhverja fjármuni? spyr Ditta í bréfi sínu.
Við höfðum til gjafmildi og rausnarskapar Íslendinga. Hjálpar er þörf nú þegar, skrifar Ditta ennfremur.
Chak skólinn var byggður árið 2006 og voru það hjón á höfuðborgarsvæðinu sem gáfu þann skóla.Í skólanum stunda nú rúmlega 220 börn nám. Börn frá 3 þorpum í nokkurra kílómetra fjarlægð frá Chak stunda einnig nám í skólanum.
ABC barnahjálp hefur sett af stað söfnun til að hjálpa fjölskyldum kristinna í Pakistan sem misst hafa allt.
Söfnunarreikningur
0344-26-1000
kt. 690688-1589
Vinsamlegast setjið í TILVÍSUN "Pakistan"
Frétt af mbl.is
Athugasemdir
svo ömurlegt.Auðvitað á að styrkja ABC og þeirra frábæra starf
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 10.8.2009 kl. 15:14
Sæl og blessuð Helena mín
Guð blessi þig fyrir að vekja athygli á þessu alvarlega ástandi sem trúsystkinin okkar glíma við í Pakistan og einnig að minna á börnin sem ABC er að hlúa að þarna.
Kær kveðja/Rósa
Rósa Aðalsteinsdóttir, 13.8.2009 kl. 20:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.